Ungmennafélag Grindavíkur

Ótrúlegur viđsnúningur á lokamínútunum tryggđi Grindavík sigur á ÍR
Ótrúlegur viđsnúningur á lokamínútunum tryggđi Grindavík sigur á ÍR

Grindavík er komið í 8-liða úrslit Maltbikarsins eftir ótrúlegan seiglusigur á ÍR í Mustad höllinni í gær. Gestirnir voru með yfirhöndina nær allan leikinn og leiddu 65-75 þegar rúmar 7 mínútur voru til leiksloka en þá tók við ótrúlegur kafli þar sem Grindavík skoraði 10 stig án þess að ÍR næðu að svara fyrir sig og staðan 75-75.

Karfan.is fjallaði um leikinn:

Grindavík tók á móti ÍR í 16 liða úrslitum Maltbikarsins. ÍR var með forystuna langt af í leiknum og skellti í litla þriggja stiga veislu í seinni hluta fyrsta leikhluta. Leikurinn var töluvert jafnari í öðrum leikhluta en ÍR leiddi leikinn 46 - 57 í hálfleik. Það var ekki fyrr en í fjórða leikhluta sem Grindavík náði að jafna 75 - 75 þegar sex mínútur voru eftir af leiknum. Leikurinn endaði í tölunum 93 - 86 Grindavík í vil.

Þáttaskil
ÍR-ingar náðu góðu forskoti í fyrsta leikhluta og héldu því í gegnum leikinn þar til kom að fjórða leikhluta og Grindvíkingar náðu að jafna þrátt fyrir að vera níu stigum undir í lok þriðja leikhluta. Grindvíkingar héldu haus og börðust hart í fjórða leikhluta og unnu leikinn með sjö stigum.

Hetjan
Quincy átti góðan leik fyrir hönd ÍR-inga, Hann skilaði 26 stigum og fiskaði 7 villur. Þá var Kristinn Marínósson óstöðvandi í fyrri hálfleik og var hann búinn að setja 17 stig þegar flautað var til hálfleiks. Hann bætti síðan 5 stigum við til viðbótar og skilaði 22 stigum samtals.

Liðsheild Grindvíkinga var hetja þeirra þar sem þeir ná að spila boltanum vel á milli sín og dreifist stigaskorið jafnt yfir hópinn. Ómar Örn Sævarsson skilaði sínu í fráköstunum og reif í sig 16 stykki. Þá tók Þorleifur Ólafsson 10 talsins. Ingvi Þór Guðmundsson átti hörku innkomu fyrir hönd Grindvíkinga og spilaði flotta vörn.

Kjarninn
Grindavík er komið í 8 liða úrslit Maltbikarsins. ÍR átti hörku upphaf í leiknum og náði góðu forskoti. Þrátt fyrir að vinna fyrsta leikhluta með 12 stigum töpuðu þeir leiknum í fjórða leikhluta þar sem Grindavík vann þann fjórða með 16 stigum. Leikurinn var jafn í öðrum og þriðja leikhluta þrátt fyrir að ÍR hafði forskotið. Erfitt getur reynst að vinna leik með fimm leikmönnum en ÍR-ingar reyndu á það þar sem fimm leikmenn liðsins spiluðu yfir 30 mínútur. Skotnýting ÍR fór dalandi með hverjum leikhlutanum og er líklegt að leikmenn þeirra voru orðnir þreyttir undir lok leiks.

Dæmdar voru þrjár óíþróttamannslegar villur í leiknum en mikil harka átti sér stað og menn voru æstir á köflum. Þá misstu Grindvíkingar tvo leikmenn útaf með fimm villur þá Þorstein Finnbogason og Ólaf Ólafsson.  

Þegar leik var lokið lét Sveinbjörn Claessen skoðun sína á ritaraborðinu í ljós en gleymdist að setja upp keiluna þegar liðsvillur ÍR-inga voru orðnar fimm í leikhlutanum og vissu ÍR-ingar þar af leiðandi ekki af því að Grindvíkingar voru komnir í bónus. Sveinbjörn missti sig yfir dómarana sem endaði með því að Kristján Pétur dró Sveinbjörn í burtu til að sporna við meiri asa. Þorleifur Ólafsson lét einnig skoðun sína í ljós á dómgæslu leiksins en hann taldi hana í slakari kantinum.

 

Tölfræði leiksins