Ungmennafélag Grindavíkur

Grindavík nappađi heimavallarréttinum af Haukum
Grindavík nappađi heimavallarréttinum af Haukum

Grindavíkurkonur sýndu mikinn karakter í gær þegar þær snéru vonlausri stöðu í glæsilegan sigur og hafa nú tekið forystu í einvíginu, 1-0. Leikurinn fór ekkert sérstaklega val af stað fyrir Grindvíkinga sem voru að hitta skelfilega og í hálfleik voru Haukar með þægilega forystu, 37-23. Okkar konur mættu hins vegar dýrvitlausar til leiks í seinni hálfleik, héldu Haukunum í 8 stigum í 3. leikhluta og staðan orðin 45-44 fyrir lokaátökin. Fjórði leikhluti var hnífjafn og spennandi en Grindavík vann að lokum sigur, 58-61.

Karfan.is gerði leiknum ítarlega skil:

Grindavík opnaði einvígið uppá gátt

Pressulausar tóku Grindavíkurkonur 1-0 forystu í undanúrslitum gegn Haukum þegar liðin mættust í DB Schenkerhöllinni í kvöld. Lokatölur 58-61 Grindavík í vil sem snöpuðu til sín heimaleikjaréttinum með sigrinum. Fyrirfram gerðu flestir ráð fyrir því að Haukar yrðu sigurstranglegra liðið í rimmunni en með frammistöðunni í kvöld er ekki ósennilegt að Grindvíkingar hafi fengið marga efasemdarmenn til þess að hugsa sinn gang.

Varnarleikur Grindavíkur var þéttur í síðari hálfleik og heimilaði Haukum aðeins 21 stig á 20 mínútum en Hafnfirðingar hreinlega koðnuðu niður þegar mikið lá við í leiknum. Ósigurinn svíður því Haukar höfðu urmul tækifæra til þess að kæfa leikinn og jafnvel stinga af en voru aldrei nægilega afgerandi í því að hrinda Grindvíkingum frá sér. Gestirnir tórðu því inni og þar sem ekki vantar reynsluna á þann bæinn tókst þeim að loka leiknum af miklu harðfylgi eftir nöturlegan fyrri hálfleik.

Einhver úrslitakeppnis-hrollur var í liðunum á upphafsmínútunum þar sem lítið var skorað. Haukar áttu samt frumkvæðið og leiddu 17-12 að loknum fyrsta leikhluta. Hafnfirðingar lokuðu leikhlutanum vel með 7-3 spretti en liðunum leið ekki vel utan við þriggja stiga línuna, Haukar 1-8 og Grindavík 2-7.

Snemma í öðrum leikhluta klukkaði Helena Sverrisdóttir inn tvennuna, 11 stig og 10 fráköst. Haukar voru við stýrið og miðað við slælegar sóknir Grindvíkinga var það allt að því furðulegt að Haukar hefðu ekki slitið sig lengra frá en 31-23. Aftur lokuðu Haukar leikhlutanum vel, tóku 6-0 lokarispu og leiddu 37-23 í hálfleik.

Helena Sverrisdóttir var mögnuð í fyrri hálfleik með 15 stig og 14 fráköst og Jóhanna Björk Sveinsdóttir átti fínar rispur með 6 stig og 2 stoðsendingar. Hjá Grindavík var Whitney Frazier með 12 stig og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir með 8 stig og 6 fráköst en skotnýting Grindvíkinga var afleit, 13% í teignum og 17% í þriggja sem er ekki vænlegt til árangurs gegn ríkjandi deildarmeisturum.

Skotnýting liðanna í hálfleik:

Haukar: Tveggja 46% - þriggja 15% - víti 78%
Grindavík: Tveggja 13% - þriggja 17% - víti 79%

Grindvíkingar komu með allt annað fas inn í þriðja leikhluta, Frazier var beitt í sókninni en varnarmegin skellti Grindavík í lás og hélt Haukum í aðeins 8 stigum í leikhlutanum! Grindavík gerði vel í að halda Helenu Sverrisdóttur fjarri körfunni og almennt ýttu þær Haukum út úr vel flestum sínum aðgerðum. Björg Guðrún Einarsdóttir minnkaði muninn af vítalínunni fyrir Grindavík í 45-44 og þannig stóðu leikar fyrir fjórða og síðasta leikhluta. 

Í fjórða leikhluta tókst Grindavík svo loks að komast yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar Björg Guðrún splæsti í þrist 49-52. Eftir þetta var það bara stál í stál en þegar hálf mínúta lifði leiks var dæmd ólögleg hindrun á Hauka og mátti vissulega deila um réttmæti þess dóms. Þar með fór gullið tækifæri fyrir Hauka til að jafna leikinn eða minnka muninn í að minnsta kosti eitt stig og reynsluboltarnir í Grindavík héldu spilunum þétt að sér á lokasprettinum og uppskáru 58-61 sigur!

Með sigrinum opnaði Grindavík einvígið upp á gátt, Haukar hafa verið fyrnasterkir í vetur og ríkjandi deildarmeistarar en eru nú á leið til Grindavíkur 1-0 undir í seríunni og verður afar fróðlegt að sjá hvernig Hafnfirðingar muni koma til leiks eftir niðurstöðu kvöldsins.

Grindavík leiðir því einvígið 1-0 og liðin mætast aftur í Mustad-höllinni í Grindavík þann 2. apríl næstkomandi.

Helena Sverrisdóttir var langatkvæðamest í liði Hauka í kvöld með 21 stig, 22 fráköst og 5 stoðsendingar og næst henni kom Jóhanna Björk Sveinsdóttir með 10 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar. Hjá Grindavík var Whitney Frazier með 24 stig, 5 fráköst og 2 stoðsendingar. Björg Guðrún gerði 7 stig í leiknum og var sterk á járnaköflum leiksins sem og Ingunn Embla Kristínardóttir sem gerði 7 stig og gaf 4 stoðsendingar.

Tölfræði leiksins

Myndir/ Axel Finnur
Umfjöllun/ Jón Björn

Viðtal við Daníel Guðmundsson þjálfara eftir leik:

Svipmyndir úr leiknum ásamt viðtölum frá Sport Tíví: