Ungmennafélag Grindavíkur

Bikarinn í Hólminn ţetta áriđ
Bikarinn í Hólminn ţetta áriđ

Bikarmeistarar Grindavíkur léku gegn Íslandsmeisturum Snæfells í úrslitaleik Powerade bikarsins núna á laugardaginn og er skemmst frá því að segja að bikarinn hefur yfirgefið Grindavík og er farinn í Stykkishólm. Leikurinn fór illa af stað fyrir okkar konur sem voru ekki að finna sig í skotunum sínum en eftir 6 mínútna leik voru þær aðeins búnar að skora eina körfu og staðan 11-2. Þar með var tónninn í rauninni sleginn fyrir leikinn en Grindvíkingar eyddu mikilli orku í að elta allan leikinn. Þær minnkuðu muninn í eitt stig í þriðja leikhluta, 48-47, en lengra komust þær ekki, lokatölur 78-70.

Meðan að skotin voru ekki að detta hjá Grindavík virtist eiginlega vera sama hvar þær Gunnhildur Gunnarsdóttir og Haiden Palmer tóku skot, það var allt ofan í. Þær voru báðar með 5/8 í þristum og Palmar minnti á köflum á Steph Curry. Hún tók skot hvar og hvenær sem henni datt í hug og boltinn virtist hreinlega sogast að körfunni. Hjá Grindavík var Whitney Frazier drjúg og komst vel frá sínum leik með 32 stig og 16 fráköst en miklu munaði um lítið framlag frá öðrum leikmönnum sóknarmegin. Lykilmaður leiksins í fyrra, Petrúnella Skúladóttir, var t.a.m. stigalaus og sömuleiðis systir hennar Hrund, sem spilaði að vísu bara rúmar 2 mínútur. 

Snæfell sýndi í þessum leik af hverju þær eru ríkjandi Íslandsmeistarar en þetta Grindavíkurlið á helling inni og munu eflaust leggja allt kapp á að klára deildina með stæl og blanda sér í baráttuna um titilinn í vor. 

Tölfræði leiksins

Myndbrot úr leiknum (Davíð Eldur)

Ingunn Embla átti góða innkomu af bekknum og kom með mikla baráttu og áræðni í leikinn, endaði með 10 stig og 6 stoðsendingar.

Hálf stúkan var fagurgul en það dugði ekki til í þetta skiptið, þrátt fyrir mikil tilþrif stuðningsmanna á köflum.

Myndir: Bára Dröfn

Viðtal við Ingibjörgu eftir leik

 

Viðtal við Sigrúnu Sjöfn eftir leik