Ungmennafélag Grindavíkur

Glötuđ stig í tvíframlengdum leik í Hólminum
Glötuđ stig í tvíframlengdum leik í Hólminum

Grindvíkingar mættu í Stykkishólm í gær í svokallaðan 4 stiga leik, en liðin eru að berjast um síðustu sætin, jafnvel í úrslitakeppninni í vor. Okkar menn mættu til leiks án þeirra Þorleifs og Páls Axels en Hilmir er kominn aftur af stað. Grindvíkingar voru fáliðaðir en heimamenn voru enn verr settir, aðeins með 9 menn á skýrslu. Það var því sennilega komin nokkur þreyta í menn í lokin, en leikurinn var tvíframlengdur. Það fór svo að lokum að Snæfell kláraði leikinn, 110-105.

Karfan.is gerði leiknum rækilega skil. Umfjöllunin er stórskemmtileg og fylgir hér að neðan:

Háspenna í Hólminum

Það mátti búast við spennandi leik í Hólminum í gærkvöld, liðin jöfn að stigum fyrir leikinn. Fjögurra stiga leikur eins og menn kalla það.

Fyrir leikinn voru Grindvíkingar búnir að vinna tvo leiki í röð og vonuðust til að ná þeim þriðja. Snæfellingar sigruðu Hött í síðustu umferð eftir að hafa tapað fyrir góðum Njarðvíkingum umferðina áður.

Leikurinn byrjaði nokkuð rólega í stigaskorinu, menn voru að fá góð skot en þau ekki að fara ofaní. Jón Axel var svo sem ekkert rólegur kominn með 9 stig eftir fimm mínútur. Drengurinn stjórnaði leik Grindavíkinga eins og herforingi eins og svo oft áður. Erlendi leikmaður Grindavíkur minnti á sig og skorði góðar körfur í fyrsta leikhluta - auk þess að fá á sig dæmdar þrjár sekúndur inn í teig (hann er góður að nota sínar sekúndur). Hólmarar dreifðu skorinu betur á milli sín í fyrsta leikhlutanum en það átti eftir að breytast þegar á leið. Leikhlutinn búinn og staðan 16 - 17 fyrir gestina frá Grindavík.

Annar leikhluti byrjar stórkostlega hjá Snæfell þeir skora 17 stig á móti fjórum fyrstu fimm mínúturnar. Það helsta sem gerðist á þessum kafla var að Charles Wayne Garcia fékk að líta sína fjórðu villu. Sherrod Nigel Wright fann til með honum og lét dæma á sig þrjár í röð og kom sér einnig í fjórar villur áður en fyrri hálfleikurinn endaði. Það verður að viðurkennast að nokkrir dómar komu eins og þruma úr heiðskýru loft í kvöld. Báðir þjálfara liðanna fengu tæknivillur fyrir uppsafnað (hvort það hafi verið frá þessum eða öðrum leik veit maður ekki).
Hólmarar voru því fljótir að ná undirtökunum í leiknum og virtust ætla að eiga þægilegt fimmtudagskvöld. Með þessum þremur villum í röð hjá Sherrod náðu Grindvíkingar að minnka muninn úr 18 stigum í 12 og fóru þeir inn í hálfleikinn með baráttu og vilja. Í Hálfleik höfðu heimamenn skorað 50 stig á móti 38 stigum gestanna.

Þeir sýndu það svo í byrjun þriðja leikhluta að barátta og vilji skilar liði á þann stað sem þeir ætla sér. Með 11 - 0 kafla komu þeir sér heldur betur inn í leikinn aftur. Snæfellingar voru þá komnir í þá stöðu að spila1 á 1 og hættir að opna vörn Grindvíkinga eins og þeir gerðu allan fyrri hálfleikinn. Gestirnir frá Grindavík sem voru án Paxels og þeirra helsta baráttumanns unnu leikhlutann með 10 stigum. Jóhann Ólafs minnti heldur betur á sig og Hilmir sem er nýkominn úr meiðslum skellti tveimur þristum í andlit Hólmara. Hólmarar heillum horfnir í fjórðungnum og í raun heppnir að vera með 70 - 68 forystu fyrir þann fjórða. Sherrod var kominn með 33 stig á þessum tíma og í algjörum sérflokki. Báðir erlendu leikmennirnir náðu að komast villulausir í gegnum leikhlutann og Stefán Karel var kominn í sama flokk með fjórar villur fyrir síðasta fjórðunginn. Stefán var með 2 stig og 3 fráköst eftir þrjá leikhluta. Hann endaði leikinn eins og sannur víkingur með 12 stig og 13 fráköst já og fjórar villur - glæsilegur lokakafli hjá honum.

Fjórði leikhlutinn hefst og allt í járnum, fólk í stúkunni að vakna og Gummi Braga duglegur að halda mönnum á tánum með reynslu köllum inn á völlinn. Liðin skiptust á að skora í fjórðungnum og var eins og annað liðið vildi ekki slíta sig frá hinu. Baráttan var í góðu lagi og það sýndi sig helst í því að sóknarfráköstin voru 15 - 24 Grindvíkingum í vil. Stál í stál og leikurinn að renna úr greipum Grindvíkinga þegar 3,3 sekúndur eru eftir. Grindvíkingar fá innkast undir körfunni. Charles Wayne Garcia plantar sér vel í teignum, þvílíkt pláss sem maðurinn tekur, og skorar góða körfu og jafnar leikinn. Hann skilur þó 1,7 sekúndur eftir af klukkunni og Ingi Þór tekur að sjálfsögðu leikhlé. Kerfi teiknað upp, Grindvíkingar skipta á öllum skrínum og sóknin endar með jafnvægis litlu þriggjastiga skoti frá Sherrod Wright, skotið var nú ekki alslæmt samt sem áður. Framlenging er staðreynd og fólkið í Hólminum að fá eitthvað fyrir peninginn - 87 - 87 eftir venjulegan leiktíma.

Það var lítil breyting á liðunum nema hvað Charles Wayne Garcia nældi sér í sína fimmtu villa þegar hann fékk dæmda á sig sóknarvillu um miðja framlenginu. Heimamenn kættust í stúkunni en gestirnir ekki sáttir. Sherrod áfram inn á vellinum með 4 villur síðan í fyrri hálfleik. Leikurinn einkenndist af baráttu og vilja til þess að vinna körfuboltaleik.

Jóhann Árni Ólafsson hefði getað farið langt með leikinn þegar hann átti tvö vítaskot þegar rúm ein mínúta var til leiksloka, bæði vítaskotin hans geiguðu. Það notfærði Þorbergur Sæþórsson sér vel og smellti fimm stigum í röð og kom Snæfell tveimur stigum yfir þegar örfáar sekúndur lifðu af leiknum. Ingvi Þór setti hins vegar tvö vítaskot og jafnaði leikinn - drengurinn ískaldur á línunni. Hólmarar fengu aftur tækifæri á því að vinna leikinn - kerfið fór út um þúfur en það endaði samt með góðu gegnum broti frá Þorbergi sem tók skot undir körfunni, villufnykur en dómarar leiksins alls ekki á sama máli og í raun ekki sáttir að menn skulu vilja fá einhvern skapaðann hluti. Það þurfti því að framlengja aftur! Þvílíkur leikur!

Önnur framlenging og menn hvergi að verða þreyttir, Hólmarar voru sterkari á þessum kafla og skoruðu sex stig á móti tveimur á 2 og hálfri mínútu. Sá biti varð of stór og þurftu Grindvíkingar að reyna erfið skot til að ná leiknum til sín. Snæfellingar nýttu sér varnar stoppin ekki nægilega vel og gáfu boltann frá sér og fengu dæmd skref á sig á ögurstundu. Grindvíkingar gerðu það sama og því fór sem fór fyrir þá. Heimamenn í Snæfell náðu að kreista út sigur eftir tvær framlengingar. Þvílíkur sigur fyrir þá, komnir tveimur stigum yfir Grindavík og eiga innbyrðis viðureignina á þá sem gæti talið drjúgt í lokinn.

Maður leiksins er án efa Sherrod Nigel Wright línan hans var ekki ónýt 49 stig og 16 fráköst takk fyrir. Auk þess að spila í 30 mínútur án þess að fá hina alræmdu fimmtu villu.

Tölfræði leiksins

Myndasafn Eyþór Benediktsson
Myndasafn Sumarliði Ásgeirsson