Ungmennafélag Grindavíkur

Grátlegt tap gegn Keflavík
Grátlegt tap gegn Keflavík

Grindavíkurkonur fóru aftur af stað eftir jólafrí í gær og við fyrstu sýn virtust þær ætla að fara af stað með trukki. Grindvíkingar létu þristunum rigna (8 í fyrsta leikhluta) og leiddu leikinn 45-34 í hálfleik. En í þriðja leikhluta gekk allt á afturfótunum og Keflvíkingar komust aftur inn í leikinn og leiddu fyrir lokaátökin, 57-62. Fjórði leikhluti var nokkuð jafn og okkar konur fengu séns á að jafna í stöðunni 76-78 en Whitney Frazier brenndi þá af tveimur vítum og lokatölur urðu 76-80.

Ingibjörg Jakobsdóttir lék sinn fyrsta leik á tímabilinu í gær en hún hefur verið að jafna sig af erfiðum meiðslum. Grindvíkingar voru því með fullskipað lið í leiknum í gær, sennilega í fyrsta skipti á tímabilinu. Hinn bandaríska Whitney Frazier gat þó ekki beitt sér af fullum krafti og spilaði aðeins rúmar 19 mínútur. Hún var bæði nýstigin út úr flugvélinni, en leiknum var flýtt um einn dag, og er einnig að spila á bólgnum ökkla. Hún verður vonandi búin að kæla hann vel fyrir næsta leik en það er bikarleikur gegn Haukum sem aðeins hafa tapað einum leik á tímabilinu.

Karfan.is var á staðnum og fjallaði um leikinn:

„Fyrsti leikur ársins í Domino's deild kvenna fór fram í kvöld þegar Keflavík sótti Grindvíkinga heim í Mustad-höllinni. Fyrir leikinn sat Grindavík í þriðja sæti deildarinnar með 12 stig eftir 11 leiki en Keflavík fylgdi fast á hæla þeirra með 10 stig.

Grindavík lokaði vel á sóknarleik Keflavíkur strax í upphafi leiks og skoraði Keflavík ekki nema 14 stig í fyrsta leikhluta. Á sama tíma voru Grindavíkurstúlkur sjóðheitar fyrir utan þriggja stiga línuna og settu 8 af 11 þriggja stiga skotum sínum í leikhlutanum. Grindvíkingar leiddu eftir fyrsta leikhluta með 16 stigum, 30-14.

Keflavíkurstúlkur mættu ákveðnari til leiks í öðrum leikhluta og minnkuðu forskot Grindavíkur niður í 11 stig áður en gulklæddar heimakonur komu til baka og juku forskotið í 18 stig. Margrét Sturlaugsdóttir tók þá leikhlé og við það hresstist leikur Keflavíkur. Þær settu 14 stig á móti 7 stigum Grindavíkur það sem eftir lifði leikhlutans og minnkuðu muninn í 11 stig fyrir hálfleik, 45-34. Petrúnella Skúladóttir var atkvæðamest í liði Grindavíkur í fyrri hálfleik með 14 stig og Hrund Skúladóttir bætti við 12 stigum. Melissa Zornig fór fyrir liði Keflavíkur með 10 stig og þá var Sandra Lind Þrastardóttir með 8 stig sem öll komu í öðrum leikhluta.

Keflavík byrjaði seinni hálfleik af krafti og eftir körfur frá Þórönnu og Melissu var forskot Grindavíkur komið niður í 7 stig. Grindavík átti í erfiðleikum með að skapa sér færi á móti grimmri vörn Keflavíkur í upphafi leikhlutans og skoruðu þær ekki sín fyrstu stig fyrr en rúmlega þrjár mínútur voru liðnar af honum. Keflavíkurstúlkur söxuðu jafnt og þétt á forskot Grindavíkur og jöfnuðu leikinn í stöðunni 53-53 þegar Sandra Lind setti niður tvö víti eftir að hafa rifið niður sóknarfrákast og sótt villu. Fjögur stig frá Melissu Zornig fyrir lok leikhlutans tryggði Keflavík fimm stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 57-62.

Allt var í járnum í fjórða leikhluta þar sem hvorugt liðið gaf neitt eftir. Petrúnella Skúladóttir sem átti góðan leik fyrir Grindavík, fékk sína fimmtu villu um miðjan leikhlutann og lék því ekki meira með. Keflavík náði mest 7 stiga forystu í leikhlutanum en Grindvíkingar gáfust ekki upp og börðust allt til loka leiks. Þriggja stiga karfa frá Hrund Skúladóttur minnkaði forskot Keflavíkur í 1 stig þegar 8 sekúndur voru eftir af leiknum. Grindvíkingar brutu strax á Melissu Zornig sem fór á vítalínuna og setti niður fyrra vítið. Staðan 76-78 þegar 7 sekúndur voru til leiksloka og Grindavík með boltann. Heimakonur stilltu upp í sókn og boltinn barst til Whitney Frazier sem sótti villu og fékk tvö vítaskot. Hún nýtti hvorugt vítanna og gestirnir fóru að lokum með sigur af hólmi eftir æsispennandi lokasekúndur í hörkuleik. Keflavík situr eftir leikinn í 3. sæti í deildinni með 12 stig líkt og Grindavík.

Atkvæðamest í liði Keflavíkur var Melissa Zornig með 20 stig og 6 fráköst, Guðlaug Björt Júlíusdóttir skoraði 16 stig og tók 10 fráköst og Sandra Lind Þrastardóttir bætti við 16 stigum og 9 fráköstum auk þess að verja 3 skot.

Hjá Grindavík var Petrúnella Skúladóttir stigahæst með 17 stig og 6 fráköst, Hrund Skúladóttir skoraði 16 stig og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði 15 stig, þar af 7 stig á síðustu tveimur mínútum leiksins.“

Tölfræði leiks - 76-80 (30-14, 15-20, 12-28, 19-18)

Stigaskor Grindavíkur: Petrúnella Skúladóttir 17 stig/6 fráköst, Hrund Skúladóttir 16 stig, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 15 stig/5 fráköst, Whitney Michelle Frazier 12 stig/5 fráköst, Ingunn Embla Kristínardóttir 6 stig, Björg Guðrún Einarsdóttir 5 stig, Ingibjörg Jakobsdóttir 2 stig/5 stoðsendingar, Helga Einarsdóttir 2 stig, Lilja Ósk Sigmarsdóttir 1 stig/5 fráköst, Jeanne Lois Figeroa Sicat 0 stig, Viktoría Líf Steinþórsdóttir 0 stig, Elsa Katrín Eiríksdóttir 0 stig

Stigaskor Keflavíkur: Melissa Zornig 20 stig/6 fráköst, Guðlaug Björt Júlíusdóttir 16 stig/10 fráköst, Sandra Lind Þrastardóttir 16 stig/9 fráköst/3 varin skot, Þóranna Kika Hodge-Carr 8 stig/6 fráköst, Marín Laufey Davíðsdóttir 7 stig/5 fráköst, Thelma Dís Ágústsdóttir 4 stig/5 fráköst, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 5 stig, Katla Rún Garðarsdóttir 3 stig, Elfa Falsdóttir 1 stig, Irena Sól Jónsdóttir 0 stig, Bríet Sif Hinriksdóttir 0 stig.

Myndasafn