Ungmennafélag Grindavíkur

Fyrsta deildartap ársins hjá stelpunum
Fyrsta deildartap ársins hjá stelpunum

Fótboltasumarið hjá Grindavíkurstelpum hefur verið ótrúlegt ævintýri en þær fóru taplausar í gegnum deildina og komust í 8-liða úrslit í bikarnum. Eftir öruggan sigur í B-riðli 1. deildar tók úrslitakeppni við um tvö laus sæti í úrvalsdeild að ári. Stelpurnar afgreiddu Augnablik í fyrstu umferð en næstu andstæðingar er lið ÍA og virðist vera á brattan að sækja fyrir Grindavík í því einvígi.

Fyrri leikur liðanna fór fram í gær uppi á Skipaskaga og er skemmst frá því að segja að leikar fóru 3-0 fyrir heimastúlkur. Ekki er þó öll nótt úti enn því seinni leikurinn er eftir en hann fer fram hér í Grindavík á miðvikudaginn.

Eftirfarandi umfjöllun birtist um leikinn á Facebook-síðu knattspyrnudeildarinnar í gær:

„Stelpurnar áttu ekki sinn besta dag á tímabilinu í gær er þær léku fyrri úrslitaleikinn við ÍA stelpur uppi á Skaga en leikurinn endaði 3-0 fyrir ÍA. Frekar mikill vindur var og völlurinn mjög blautur. Segir markatalan ekki alveg til um gang leiksins en þær skoruðu úr aukaspyrnu, vítaspyrnu og svo kom mark þar sem rangstaða var ekki dæmd en var greinileg. Er þetta fyrsta tap stelpnanna í deildinni í allt sumar.
Núna er bara að taka seinni leikinn sem verður í Grindavík núna á miðvikudaginn og hefst leikur klukkan 17:15. Við spilum til þrautar. Þetta er ekkert búið dæmi enda 90 mínútur eftir. Fyrri 90 mínúturnar dugðu ÍA til að skora 3 mörk því höfum við jafn langan tíma til að jafna.

Vonandi sjáum við sem flesta á vellinum.
Áfram Grindavík.“