22 stig frá Lalla dugðu ekki til sigurs

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Grindvíkingar tóku á móti nýliðum FSu í Dominosdeild karla í gær, en okkar menn mættu til leiks með nokkuð lemstraðan hóp. Þeir Hilmir, Jóhann Árni og Páll Axel eru allir frá vegna meiðsla og þá lék liðið án erlends leikmanns en Chuck Garcia kom ekki til landsins fyrr en í morgun. Grindvíkingar höfðu unnið FSu tvisvar í vetur og gestirnir voru eflaust með það á bakvið eyrað að ná fram hefndum í þessum leik.

Fréttaritari síðunnar var á leiknum, smellti af nokkrum myndum og skrifaði umfjöllun um leikinn sem birtist einnig á karfan.is en Grindavík.is og Karfan eiga í góðu og gjöfulu samstarfi.

„Grindvíkingar mættu nokkuð lemstraðir til leiks í Mustad höllina í kvöld en eins og Jóhann Þór þjálfari sagði í viðtali eftir leik er það auðvitað engin afsökun. Grindvíkingar eru enn Kanalausir en Chuck Garcia er þó sennilega að stíga upp í flugvél í þessum töluðu orðum og er væntanlegur til landsins í fyrramálið. Fyrir utan Kanaleysi þá voru þeir Jóhann Árni, Hilmir og Páll Axel allir meiddir í kvöld og í borgaralegum klæðum. Það kom því í leikmanna sem hafa ekki spilað margar mínútur í vetur að taka af skarið og nýttu þeir tækifærið flestir vel. Það fór þó þannig að lokum að FSu höfðu sigur í leiknum, sem hófst með mikilli baráttu og munaði þar ekki síst um framlag Chris Woods, sem ákallaði sinni innri Andre Drummond, skoraði 26 stig og reif niður 20 fráköst og var með 40% vítanýtingu.

Leikurinn var hnífjafn í byrjun. Grindvíkingar virtust ætla að vera skrefinu á undan en gestirnir hleyptu þeim aldrei langt á undan sér. Grindvíkingar voru skotglaðir fyrir utan þriggjastigalínuna í fyrri hálfleik en voru ekki að hitta vel, aðeins með 5/19, og þar af var Hinrik Guðbjartsson búinn að setja 3 í 3 tilraunum. Á meðan var skotnýting FSu áberandi betri, í öllum þremur tölfræðiþáttum, tveggja, þriggja, og vítum og í hálfleik munaði aðeins 3 stigum á liðunum, 46-43 fyrir Grindavík.

Stigahæstir í hálfleik hjá Grindavík voru áðurnefndur Hinrik með 13 stig og Þorleifur Ólafsson með 10. Hjá gestunum var Woods kominn með 14 stig og 10 fráköst í hálfleik og Ari Gylfason kom næstur með 10 stig.

Í þriðja leikhluta skiptu FSu í svæðisvörn sem virtist rugla Grindvíkinga svolítið í rýminu. Í stað þess að láta boltann ganga hratt hægðist mjög á leik heimamanna og gestirnir gengu á lagið og unnu leikhlutann 23-31 og eftir það varð eiginlega ekki aftur snúið. Grindvíkingar gáfust þó ekki upp og minnkuðu muninn í 71-74, en nær komust þeir ekki og lokatölur urðu 85-94, FSu í vil.

Það má segja að FSu hafi unnið góðan liðssigur í kvöld, þar sem allir voru að leggja sig fram þó svo að sumir hafi vissulega skarað fram úr. Þeir voru að hitta vel fyrir utan (46%), og fengu líka nokkur ansi opin skot þar. Hlynur Hreinsson setti 4 þrista í 5 tilraunum og Ari Gylfa 3, þar af tvo nokkuð langt fyrir utan. Chris Woods var svo eins og áður sagði gríðarlega atkvæðamikill í leiknum, þó svo að vítin hafi ekki verið að detta (4/10).

Hjá Grindavík var Þorleifur stigahæstur með 22 stig, en þó í 26 skotum. Ómar Örn kom næstur með 18 stig og 14 fráköst. Grindvíkingar duttu svolítið í einstaklingsframtakið undir lokin en þeir Hinrik og Þorsteinn Finnbogason hefðu að ósekju mátt fá að taka 1-2 “heat check” fyrir utan þriggja undir lokin, búnir að setja 5 þrista í 6 tilraunum.

Selfyssingar hljóta að varpa öndinni örlítið léttar eftir þessa byrjun á nýju ári, en með sigri í næsta leik geta þeir jafnað ÍR að stigum, en leikurinn er einmitt á móti ÍR. Grindvíkingar aftur á móti þurfa að fara að girða í brók ef þeir ætla ekki að missa af úrslitakeppnislestinni en þeir bíða eflaust með öndina í hálsinum eftir að sjá hversu megnugur Chuck Garcia er.“

Tölfræði leiksins

Myndasafn á Facebook

Viðtal við Jóhann Þór Ólafsson, þjálfara: